Orkugangan á laugardaginn kemur og enn er opið fyrir skráningu

Skíðasamband Íslands vill vekja athygli á Orkugöngunni sem er liður í Íslandsgöngunum á skíðum og mun fara fram á Reykjaheiði laugardaginn 9. apríl og verður ræst kl 11:00 í allar vegalengdir. Í Orkugöngunni verða gengnir 25 km en einnig veður í boði að ganga 10 km og 2,5 km fyrir 12 ára og yngri. Athygli er vakin á því að kl 9:45 fer rúta frá marksvæðinu á Reykjaheiði að rásmarki 10 km göngunnar og að rásmarki 25 km göngunnar á Þeistareykjum.

Kjötsúpa og verðlaunaafhending verður síðan í salnum á Dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík frá kl. 14:00 – 15:00.

Nú er lokið fyrstu þremur Íslandsgöngunum, það er á Ólafsfirði, í Hlíðarfjalla og í Bláfjöllum og hafa yfir 100 einstaklingar verið þátttakendur. Vonir standa til þess að þátttakan í Orkugöngunni verði góð og með því styður skíðagöngufólk starfsemina á svæðinu. Þátttakendur fá verðlaunapeninga fyrir framgöngu sína, auk þess sem þrír fyrstu í hverjum flokki karla og kvenna í fjórum aldursflokkum 16-34 ára, 35-49 og 50-59 ára og 60 ára og eldri eru heiðraðir sérstaklega. Allir þeir sem taka þátt í Íslandsgöngunni fá stig fyrir þáttökuna og að lokinni Fossavatnsgöngunni í vor verða krýndir meistarar í hverjum flokki.

Fjöldi skíðagöngufólks stefnir á að taka þátt í Fossavatnsgöngunni sem er lokaganga Íslandsgöngunnar og hin erfiðasta og það er fátt betra til undirbúnings henni en að taka þátt í styttri göngum, eins og Orkugöngunni. Sporið í Orkugöngunni liggur alla jafnan um tiltölulega flatt land þannig að minna vant skíðagöngufólk þarf ekki að kvíða bröttum brekkum.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Orkugöngunnar www.orkugangan.is.

SKÍ hvetur allt skíðafólk til þess að taka þátt í þeirri skíðahátíð sem Íslandsgangan er á hverjum stað og bent er á að með þátttöku er einnig stutt fjárhagslega við skíðafélag viðkomandi staðar.

mynd